Amma Lauga F:28.9.1930 D:8.6.2006

Elsku amma mín,

Nú ertu farin til langömmu, langafa og allra hundanna, kattanna, fuglanna og hinna dýranna sem voru í kring um þig. Söknuðurinn er mikill og upp í hugann koma allar þær stundir sem við áttum saman. Ég naut þeirra forréttinda að fá að alast upp hjá þér ásamt öllu því fólki sem var þér námkomið og kært. Þótt að ég hefði vitað með góðum fyrirvara að lífsþrótturinn væri á þrotum, þá kemur dauðinn alltaf jafn mikið á óvart. Þú varst undirstaða lífs míns, minna lífsviðhorfa og gilda sem mér hafa gagnast vel á lífsleiðinni.

Allt þitt líf, meðan krafta naut við, beindist öll þín orka að umhyggju og kærleika gagvart öðrum og gilti þá einu hvort um væri að ræða þína nánustu ástvini, vini eða kunningja og öll dýrin sem þú tókst upp á þína arma. Þú sást til þess að ég færi með allt með mér í skólann á morgnana og tókst á móti mér síðdegis með ristuðu brauði og kakómalti. Fuglarnir gleymdust ekki þegar harnaði á dalnum og hundarnir lifðu kóngalífi, því allir voru jafn réttháir gagnvart þér. Hvort svo sem það var nótt eða dagur var alltaf hægt að leita til þín með öll mín mál, sérstaklega áhyggjur eða vandamál, sem þú gast talað mann í gegnum og gert gott úr. Þó svo að maður gerði prakkarastrik og væri óþekkur þá hækkaðir þú aldrei róminn eða refsaðir mér heldur komst mér í skilning um muninn á réttu og röngu, góðu og vondu með þinni rólegu og yfirveguðu röddu. Þú innrættir hjá mér jákvæðni og góðvild í garð náungans, en sjálf hafðir þú náungarkærleika að leiðarljósi og gerðir aldrei neitt á hlut nokkurs manns.

Sú minning sem ég ilja mér við og koma alltaf upp í huga minn þegar ég hugsa til þín er þegar ég var lítill og var að fara að sofa. Þú sast inni hjá mér að laga föt, sagðir mér sögur og söngst lög eins og Guttavísur og Jesú bróðir besti, kenndir mér kvöldbænir og hafðir allann heimsins tíma fyrir mig og mínar hugrenningar. Eftir að ég varð eldri og þroskaðri og fór að kynnast lífinu, þá finn ég betur og betur hve veganestið frá þér dugir mér vel. Ég er minnisvarði um hugsanir þínar, umhyggju og þann mikla kærleika sem þú gafst mér þegar ég þurfti á að halda. Getur maður óskað sér einhvað betra til að fara með út í lífið.

Elsku amma ég fæ þér aldrei fullþakkað fyrir það sem þú gafst mér en vonadi get ég staðið undir því og gert þig stolta af mér.

Þökk fyrir allt og allt.

Þinn Jón Þorsteinn (Nonni þinn)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og fimm?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband