29.12.2007 | 22:00
Lu Rigning
Halló hjörtun mín. Ævintýri dagsins rigndu niður við fyrsta hanagalið. Rigning setti strik í plön okkar og varð því lestri á Hans og Grétu frestað til morguns. Í staðinn var farið að kanna aðrar ástríður og haldið í verslanamiðstöð til að skoða úrval auðvaldsins. Í fyrstu lotu duttum við inn í verslunarhöllina Printemps sem eingöngu var ætluð konum - kvenföt á 7 hæðum. Okkur var svo vísað í bakhús þar sem nokkrir fermetrar voru helgaðir okkur karlmönnum. Ásgeiri fannst hann vera eitthvað loðin um hausinn og því fundum við rakara handa honum sem tók hann og snyrti fyrir 13 evrur. Löbbuðum svo upp að Rauðu Millunni og filmuðum hana á starfrænan hátt. Brugðum okkur svo í lest með leiðsögn, sem var í formi tónlistar. Hún skutlaði okkur óvænt upp að Basilique du Sacré-Cæur. Þar dvöldum við og skoðuðum í nokkrar mínútur en héldum svo í krossför á Hard Rock Café (Kaffi Hart Rokk) þar sem veisluföng biðu okkar. Eftir 3 klst. langan matartíma og vænar steikur var gengið upp á hótel þar sem ýmis mál voru rædd.
Af ástinni er það að frétta að margir sína hana í verki með ýmsum faðmlögum og elskulegheitum á almannafæri. Því miður höfum við ekki haft spurnir af henni á öðrum vettvangi og erum við farnir að örvænta að hitapokarnir þurfi að vera í einhverri notkun eftir áramót. Enn er von um ævintýralegan endi þar sem við eigum eftir að fara í Euro Disney garðinn.
Vonum að veður verði sæmilegt á morgun.
Með vinar- og ástarkveðjum,
Jón Þorsteinn (NNF)
Breytt 12.3.2008 kl. 14:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning