28.12.2006 | 20:31
Ferðasaga 1 hluti
Jæja hjarta gullin mín, vona að þið hafið haft það sem allra best um jólin. Ég hafði það allavega bara mjög fínt í Friberg. ( Bær nálægt Dresden í Þýskalandi) Þangað hélt ég þann 22 des eftir að hafa fengið boð frá vinkonu minni Juliane um að dvelja hjá sér og fjölskyldu sinni yfir hátíðarnar og þáði ég það með miklum þökkum. Hér kemur ferðasagan, allavega fyrsti hluti hennar þar sem ég held að fólk nenni ekki að fá allan pakka í einum rykk.
Eftir venjubundna flugferð frá Íslandi þar sem bókunarkerfi og framkvæmdir eiga sér fastann sess var ég mættur til kóngsins Köben og tilbúinn að takast á við erlenda flugvallastarfsmenn og lestarverði. Hófust fyrstu átök mín við töskuleitarafgreiðsluborðið þar sem taskan mín skilaði sér ekki þegar ég kom til Danmerkur og kom hún ekki í leitirnar fyrr en þann 24. des. En eftir að hafa setið á flugvellinum í 6 tíma lá leiðin til Berlínar, nánar til tekið á flugvöllinn Tempelhof. Þar lenti ég um kl 20:15 á staðar tíma og þurfti að bíða örlítið eftir að komast út sökum þess að farþegi var eitthvað slæmur til heilsunar í vélini. Frá flugvellinum lá leiðin með Taxa yfir á lestarstöðina Südkruez þar sem ég hinkraði eftir lest til Dresden þar sem Juliane og systir hennar biðu eftir mér á lestarstöðinni. Eftir smá skoðunarferð um Dresden og ná í hluti-stopp í íbúð systir Juliane var haldið til Friberg, nánar til tekið að Lindenallee sem er rétt fyrir utan Friberg eða um 2 km. Eftir að hafa kynnt mig fyrir fjölskyldunni var mér úthlutað herbergi á 3 hæð sem innihélt bækur, hillur, skáp, sófa og rúm sem átti eftir að verða vinur minn næstu fimm nætur.
Eftir góðan nætursvefn vaknaði ég á slaginu níu og ætlaði að skella mér í sturtu en rifjaði það svo upp að það myndi vera bara sóun á góðum tíma þar sem ég hafði ekkert nema fötin sem ég var í og tannbursta sem ég fékk lánaðan. Fékk vinsamlegt vakningarkall frá þeim systrum og skokkaði því næst niður í morgunmat sem saman stóð af brauði og áleggi. Eftir morgunmat lá leið mín með Juliane inn í Friberg til að versla og skoða bæinn. Vappaði með henni inn í stórmarkað sem minnti helst á Bónusverslun úti á landi eða í Skeifunni samt var betra pláss á göngubrautunum. Eftir að hafa keypt nokkra hluti inn fyrir hádegismatinn og hálstöflur fórum við í göngutúr um bæinn. Er þetta fallegur lítill bær sem minnir á ævintýri Grímsbræðra í nútímalegu útliti og miklu fleiri verslanir. Löbbuðum meðfram vegg sem er arfur frá þeirri tíð þegar byggt var einungis innan þeirra og sýki höfð fyrir utan til að verjast óvinaherjum. Einn turninn vakti mína athygli sökum þess að á honum stóð "pest pastor" eða pestar presturinn sem mér fannst svo lítið skondið. Annað sem greip athygli mína var að sum tré í Friberg eru merkt með númerum, svipuð þeim sem við merkjum hundanna okkar með heima, ástæðuna veit ég ekki en get ímyndað mér að þetta komi sér vel ef tré tínist og er gripið af trjávörslumanninum, þá er hægt að staðsetja hvar það var áður en það tíndist??? Eftir heimsókn í aðalkirkjuna var haldið heim á leið og borðað en svo eftir matinn var haldið í bíltúr til Seiffen/Erzgebirge sem er mínu mati jólalegasti bær sem ég hef seð. Þar gat að líta vestæði sem handsmíðuðu öll leikföng og skrautmuni úr tré, auk þess sem heitt vín angaði um alt og gerði stemminguna að því sem flestir kalla jól. Eftir að hafa gengið um göturnar og veitt systur Juliane í músargildru var haldið til baka heim og sest niður við spjall og skreytingu á jólatré hússins að Lindenallee 74. Eftir þessa fjölskyldustemmingu var svo koddinn sem tók við þungum höfði í lok dags.
Nú var komið að aðfangadegi jóla og ég hálf þeyttur í morgunsárið sökum góðs nætursvefns um nóttina, sjaldan sofið jafn fast og dreymt jafn mikið, hefði fyllt snældu ef ég hefði átt að segja frá öllum draumunum og því fólki sem ég hitti í þeim. Annars hófst dagurinn á morgunmat og spjalli. Ég var ekkert mikið inn í spjallinu þar sem það fór að mestu fram á þýsku en hlustaði samt sem áður af kostgæfni. Eftir morgunmatinn fórum svo ég, pabbi Juliane, Wolfgang og Juliane í skógargöngu þar sem við gengum um fram til hádegis. Svo var Jólamaturinn fram borin um kl 13 og var það pylsa með súru káli og kartöflumús. Eftir matinn var svo lagt í hann í kirkju, en áður en í kirkjuna var farið fórum við í smá göngu um Friberg og skoðuðum umhverfið áður en messan hófst. Í messunni sem fjallaði um fæðingu Jesú var mikið sagt, en ég var aðallega í því að fylgjast með myndrænu framsetningunni þar sem en og aftur var frekar lítið um skilning á málinu. Svo slúttaði presturinn þessu um kl 17:00 og fóru þá allir heim. Þegar heim var komið var kaffi þar sem kökur léku stóran þátt á mínum disk og með þeim smákökur í aukahlutverkum. Eftir kaffið var svo farið í að opna alla pakkana sem var búið að koma vel fyrir undir trénu sem skreitt hafði verið deginum áður. Ótrúleg þá átti ég nokkra pakka þarna, og ég sem var ekki búinn að tilkinna Jólasveininum þetta, góður kalla sem fylgist víst vel með. En jæja, svo eftir að pakkar höfðu verið opnir var sungið, spilað og spilað á spil fram til miðnættis þegar þreytan var farin að rífa í mann.
Jóladagurinn byrjaði og tók enda. Um morguninn þegar ég var risin og tilbúinn að takast á við nýjan dag var morgunmaturinn að byrja og skellti ég mér í hann og át eins og hestur að venju. Næsta var ákveðið að halda til borgar Ágústusar og með mér í för voru Juliane og systir hennar sem óku. Þegar til Ágústusarborgar var komið var þoka og því lítið um útsýni úr kastalanum sem við heimsóttum. Því skelltum við okkur á safn sem fjallar aðallega um spænska rétttrúnaðar réttinn og pyntingar hans. Á eftir skellti ég mér svo á stærsta mótorhjóla safn í Evrópu að mér skildist. Þar fann ég tölvuleik sem ég skellti mér í og var um það að keyra um heiminn. Náði þar 3 sæti eftir um 15 mín leik. Eftir það skoðaði ég kláranna og tók mér góðan tíma í það. Eftir var svo haldið heim að Lindenallee og beið okkar þá svaka Önd, kartöflubolla og rauðkál. Borðaði ég svo mikið að ég lá á blístri á eftir þannig að ég átti bágt með að hreifa mig úr stað. Því brá ég á það ráð að leggja mig eftir þessi átök og svaf ég víst í tvo tíma samfleytt. Eftir svefninn var svo lífið tekið með ró fram eftir kvöldi og spilað á spil. Reyndum að skipuleggja ferðina mína líka sem ég ætlaði að fara í morguninn eftir. Um miðnætti var svo koddinn farin að öskar á mig og því mál að skella sér í bælið og bíða morgunsins.
Þegar nýr dagur rann var kl um 7 og ég rauk fram úr og skellti mér í sturtu, svo í morgunmat. Því næst lá leiðin út á lestarstöð þar sem mér var skilað af systrunum. Svo sat ég í lestinni í um 45 mín og var þá komin inn í hjarta Dresden borgar þar sem ég labbaði inn í hjartalokurnar til að kynnast henni betur. Þar blasti við mér Frúarkirkjan ásamt höllum, þinghúsum og ánni Elbu. Ranglaði þarna um í einhverja 6 tíma og tók myndir og kynnti mér mannlífið. Hitti mann sem talaði ágæta ensku og sagði hann mér frá svona því helsta í borginni og hvernig venjulegt líf færi þar fram. Um hádegisbilið var ég á vappi hjá Frúarkirkjunni og sá að tónleikar voru að bresta á eða um kl 15. Fór og ath með miða en ekkert var um slíkan munað. Fór því og skokkaði yfir í einhverja garð sem er þarna rétt hjá og gekk um hann og tók nokkrar myndir. Fór svo aftur um kl 14:45 að Frúarkirkjunni og rakst þar á konu sem veifaði miðum að fólki og bauð þá á góðu verði. Ég vatt mér upp að henni og spurðist fyrir á Þýsk-ensku og komst þá að því að þetta voru miðar á téða tónleika. Bauð nokkrar evrur í þá og fékk þar sem stutt var í að þeir byrjuðu. Skellti mér svo inn í Kirkjuna í 7. sætaröðina sæti 15 og hlýddi á undursamlega tóna í rúman klukku tíma. Eftir þetta gekk ég í átt að lestarstöðinni og var það um kl 18:00 og tók því næstu lest sem fór um kl 18:25 og var mættu tíu mín seinna í Friberg þar sem systurnar tóku á móti mér og lá leiðin heim á Tréstræti 74. Þar hitt ég fyrir ömmu og afa (pabba og mömmu mömmu Juliane) Juliane sem höfðu verið í heimsókn yfir daginn. Eftir matinn fóru þau en við héldum áfram að spila og syngja. Seinna um kvöldið fórum ég og Pabbi Juliane yfir ferðaplanið til Berlin og hvað ég gæti skoðað þar. Svo um kl 23 lá leiðin í háttinn eftir langan dag og síðasta nóttin leit dagsins ljós.
Nú var komið að kveðjustund á Lindenallee 74 og leiðin lá til Berlínar eftir morgun matinn. Fór frá lestarstöðinni í Dresden og skutluðu systurnar mér þangað þar sem þær voru á leið í skíðaferð til Tékklands. Eftir að hafa keypt miða hopaði ég upp á pall, en því miður týndi ég jólastjörnunni minni á lestarstöðinni þegar ég var að fara og er hér lýst eftir henni. Hún er rauð með mörgum oddum og er táknræn fyrir jólastjörnu þarna í bæ, finnandi er vinsamlegast beðin um að senda mér hana á Freyjugötu 18, 550 Sauðárkróki, Iceland. Nú var ég á leið inn í borg menningarinnar Berlín og datt þar inn um kl 11:00 á staðartíma. Hoppaði fyrst upp á hótel þar sem ég kom mér fyrir. Lenti í því að starfsfólk hótelsins var eitthvað efins um lestrarkunnáttu mína. Var ég bókaður í herbergi 128 í upphafi og skellti mér þangað. Þegar ég ætlaði svo að skella mér niður í lobbý til að komast á netið fór ég út en gleymdi dóti inn í herbergi. Þar sem ég hafði gegnið þarna inn í upphafi og komið mér vel fyrir taldi ég að ég ætti greiðan aðgang að herberginu aftur en þegar lykillin var settur í gerðist ekkert og fékk ég bara neitum um aðgang af herberginu mínu. Skokkað því niður í lobbý og talaði við starfsmann þar. Hún tjáði mér það að ég væri í herbergi 126 og lykillinn virkaði fínt. Ég sagði henni að ég væri í herbergi 128 og þar væri allt dótið mitt mjög skýrt og greinilega. Hún neitaði aftur og sagði að ég ætti að vera í 126 og það væri annar maður bókaðu í 128. En og aftur sagði ég henni frá því að allt dótið mitt væri inn í 128 og ef hún ætlaði ekki að hleypa mér þarna inn þá yrði hún að koma sjálf og sjá hvað ég væri að tala um. Hún sagðist ekki geta komið en kallaði á aðra konu og bað hana um að labba með mér upp á herbergi 128. Svo komum við upp í herbergi 128 og sýndi ég henni miðann sem ég hafði fengið þegar ég bókaði mig inn og á honum stóð 128. Skokkaði hún niður og fékk því framgengt að ég yrði áfram í því herbergi sem mér var úthlutað í upphafi.
Eftir að hafa komið mér vel fyrir og kynnt mér internet aðganginn fór ég að labba um Berlín og skoðaði Brandenborgarhliðið og Þinghúsið. Svo þegar kvölda tók stökk ég heim á hótel og tók smá internet sörf en brá mér svo í háttinn þar sem ég var frekar þreyttur eftir langan dag á labbi. Daginn eftir var ég kominn upp um kl 8 á staðartíma og mættur í morgunmat á hótelinu tæplega tuttugu og fimm mín. seinna. Eftir morgunmat lá leiðinn á aðalbrautarstöðina svo upp í 207 metra í sjónvarpsturninum. Eftir að ég hafði skoðað það litla útsýni sem bauðst labbaði ég í átt að Brandenborgarhliðinu. Á leiðinni kom ég við í Dómkirkjunni, safni lista og menningar og kaþólskri kirkju. Staldraði við skautasvellið þar sem ég fylgdist með fólkinu sem var á skautum og dettandi sí og æ. Á meðan ég var þarna byrjaði að snjóa og var komin töluverður snjór þegar ég labbaði í gegnum Brandenborgarhliðið. Hoppaði því upp í strætisvagn 100 og fór að dýragarðinum. Þar var komin en meiri hríð og því hætti ég við að labba meira úti og ákvað að fara bara í inniskoðunarferðir og labbaði um nokkur söfn þarna í grenndinni og í miðbænum. Hoppaði svo bara á Hótelið og byrjaði að skrifa fyrripart þessara löngu frásagnar. Svo um kl 22 lá leiðin í háttinn þar sem ég var að fara snemma í flug.
Allir þessir dagar sem ég hef dvalið í þýskalandi hafa verið alveg frábærir. Hef kynnst mörgu nýju og fullt af fólki. Átti ég alveg frábærar stundir hjá fjölskyldu Julinae þar sem ég fékk að taka þátt í jólahaldi þeirra. Vil ég en og aftur þakka fyrir mig og allt sem gert var fyrir mig og alla hjálpina við að skipuleggja ferðalagið. Fyrir mig var það ómetanlegt að fá að vera í, taka þátt, smakka og finna lyktina af öðrum jólasið sem er öðruvísi bæði í tíma og mat. Ef það er eitthvað sem fólk ætti að gera á lífstíðinni er það að kynnast sem flestum siðum og ekki festast í einhverju einu því það er svo margt sem bíður úti í hinum stóra heimi sem engin veit af en er þarna og bíður þess að vera uppgvötað. Ég er samt ekki að segja að maður eigi að taka sinn sið og selja hann fyrir einhvern annan heldur að prófa líka aðra siði, það er þess virði að mínu mati eftir þessi jól.
Næst liggur leið mín í kóngsins Köben þar sem ég mun vera ásamt Ívari og Ásgeiri fram yfir á nýja árið. Ætlum við að setja mark okkar á borgina með okkar lagi, kíkja í heimsókn til kerlingarinnar sem situr við krúnuna og sjá hvort okkur sé ekki boðið í nýársfagnað konungsfjölskyldunnar. Mun skila ýtarlegri skýrslu að ferð lokinni auk mynda sem ég hef tekið sem munu eflaust hlaupa á þúsundum, þannig það er eins gott að þið lesendur góðir farið og bakið og búið ykkur undir langa setu við skjáinn eftir áramót.
Gleðileg Jól með góðum Jóla-kveðjum,
Holmes
Breytt 12.3.2008 kl. 14:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning