Ferðasaga 2. hluti

Heil og sæl aftur mín elskan-legu , eins og hún Hólmfríður var vön að segja við okkur ferðalinganna í Sviss hér fyrr í haust. Hér kemur nú seinni hluti ferðasögu minnar um hina stóru Evrópu og vona ég að þú lesandi góður hafir nægan tíma fyrir þig til að geta sett þig inn í okkar frægðarför í köben og víðar.

Mætti til Danmerkur með pompi og prakt eftir veru mína í Þýskalandi. Þurfti svoldið að hinkra eftir flugvélinni sökum ?NEBEL? sem þjáði Tempelhof flugvöllinn. Svo þegar klukkan var farin að ganga 10:00 var okkur skellt í rútu og ekið á ?Fallega felds? flugvöllinn. Þar hoppuðum við upp í Sterlingvélina og vorum 45 mín á leiðinni yfir landamærin. Þegar til Köben kom óð ég út úr vélinni og pikkaði upp töskurnar, gekk ég svo út og mætti þar þeim heiðursmönnum Ívari og Ásgeiri sem höfðu droppað við í Köben til að hitta mig. Sökum seinkunnarinnar þurftu þeir að hinkra eftir mér en ekki öfugt. Alltaf gaman að hitta góða á góðri stund.

Nú þegar við vorum mættir á hótelið og Ásgeir búinn að segja ?mömmu? í móttökunni að hann ætti herbergi (Helloooooo......I have a Rooooommmmmmeeee) komum við okkur fyrir og lögðum okkur í hálftíma en fórum svo og löbbuðum um og skoðuðum strætóskýli í miðbænum, kíktum í Nettó uppi í hverfi og fengum okkur svo að snæða nautahamborgara á City Rock veitingastaðnum við Axeltorv sem er í miðbænum rétt við Vesterport. Eftir góðan mat var svo haldið til baka á hótelið þar sem við lögðum okkur eftir erfiðan og langan dag.

Morgunin eftir reis svo nýr dagur og vorum við félagarnir vaknaðir snemma að venju og farnir út um kl 13:00 eftir að hafa snætt staðgóðan morgunverð. Lá nú leið okkar í Tívolíið þar sem við eyddum deginum við að hræða úr okkur líftóruna og kanna mörk óttans í okkur, mitt mat á því er að Holtavörðuheiðin í hríð sé svakalegri en flest tækin þarna..... Við prófuðum nokkur tæki og fylgdumst með flugeldasýningu sem var haldin um kl 18:30, svaka sýning. Eftir sýninguna fórum við svo smá rúnnt um svæðið í barnalestinni og sungum gömul Íslensk ættjarðarljóð og söngva. Eftir var svo farið á Hart Rokk veitingastaðinn við hliðina á tívolíinu og fengið sér New Yorker nautasteik sem var svona allt í lagi og boðið var upp á kók hússins með. Eftir matinn varð ég að bregða mér heim á hótel vegna mikils slappleika (eitthvað sem virðist fylgja því að koma til Köben, þ.e. að verða drullu slappur fyrsta og annan dag). Þegar á hótelið var komið hitti ég ?Hótel-Ljóna-Mömmu? en fór svo fljótlega upp á herbergi og lagðist fyrir og dvaldi í draumheimum frameftir og lengur. Á meðan á þessu stóð þræddu þeir sem hraustari voru, þ.e. Ásgeir og Ívar, stræti og torg frá miðbænum og upp í Norðurbrú. Eftir að hafa spígsporað yfir þókkurt magn gangstéttarhellna gáfust þeir þó upp og hoppuðu upp í strætisvagn 5A sem ferjaði þá áleiðis til baka upp á Hótel.

Eftir sextán klukkustundir, sex mín. og 37 sek. í draumheimum var ég risin aftur hressari en áður og tilbúinn að takast á við að kveðja gamla árið með pompi og prakt seinna þennan dag. Lá samt upp í rúmi fram til kl 14:00 því hinir fýrarnir bærðu fjaska lítið á sér, bara fínt að sofa örlítið eftir að hafa sofið í 16 klst. Nema nú auðvitað vorum við risnir um kl 15:00 og dottnir út tæplega 45 mín seinna. Fundum okkur strætisvagn og ókum upp í Nörrebro til að kíkja á Frikka og þvottahúsið hans þar. En Frikk var víst fjarri góðu gamni, eflaust að djamma heima á íslandi. Fórum þá niður í bæ og leituðum okkur að veitingastað til að borða á, en komumst þá að því að danirnir voru búnir að upppanta alla staðina til að fagna um kvöldið. Eftir smá labb um Nýhöfnina og upp Strikið birtist okkur vin á Stríkinu og hentumst við þar inn á Mömmu Rósu sem er Mexíkanskur staður. Fengum okkur nautakjöt að venju og skoluðum því niður með eðalbornu rauðvíni (málsverðurinn var í boði FEÓÓK - Félags einstæðra, ómissandi og ómótstæðilegra karlmanna). Eftir matinn röltum við upp á Ráðhústorg og kíktum þar inn á skemmtistað og hlustuðum á tvo trúbadora þenja raddböndin á engilsaxnesku. Svo þegar loftið var farið að vera þrungi magnað af reyk og danirnir byrjaðir að tuða um hvað við Íslendingar séum alltaf að vaða yfir dani á skítugum skónum ákváðum við að bregða okkur út í hreint loft. Löbbuðum niður á Ráðhústorg þar sem við sáum að sumir voru byrjaðir að skjóta ?upp? flugeldum. Löbbuðum einn hring en stiltum okkur því næst upp við ráðhúsið og......(Lýsingar á aðferðum dana við meðhöndlun á flugeldum verður ekki birt hér vegna svakalegrar hliðarskothríðar og háskalegrar hegðunar í meðferð skotelda. Er þeim sem vildu kynna sér hvernig þetta kvöld var bennt á að skoða myndir frá átakasvæðunum í Írak og Afganistan þó svo að þeir staðir komist varla í hálfkvist á við það sem blasti fyrir okkar augum á Ráðhústorginu frá kl 23:30 til 01:00). En eftir þessa svakalegu líffsreynslu löbbuðum við um og skoðuðum næturlífið sem var fremur skrautlegt en samt engan veginn á við það sem er heima. Svo þegar gengnir voru tveir tímar af nýja árinu var haldið heim á hótelbarinn og óskað þeim sem þar voru gleðilegs nýs árs en svo haldið í kojur um þrjúleitið.

Nú árið er liðið í aldana skaut og aldrei það kemur aftur segir í gömlum dægulagatexta og er gott að setjast niður á þvílíkum tímamótum og sjá.......#$#....fyrigefið mér, datt inn í gamla áramótaræðu, en já GLEÐILEGT NÝTT ÁR!. Nýja árið var tekið rólega og ekkert verið að reyna að storka örlögunum með því að vakna senmma. En svo þegar vaknað var skelltum við okkur til Kristjaníu þar sem við duttum inn í hina víðfrægu ómenningu. Þar setumst við niður og Ásgeir fékk sér Kaffi með mjólk (= eitthvað örvandi skilst mér) og við Ívar fengum okkur bara Kók (þetta venjulega bara, óblandað). Eftir Kristjaníu lá leið okkar svo til Svíþjóðar og heimsóttum við þar hinn víðfræga sundbæ Malmö. Þar gegnum við um í leit að múmínálfunum sem eru mikið þarna á stangli. Einnig skeltum við okkur inn í kirkju bæjarins til að skoða og reyndi ég að finna Páfan til að taka eina skák, en vegna þess hversu stutt var í lokun náði ég ekki að byrja almennilega skák þannig að ég fékk bara að ljúka henni síðar. Löbbuðum svo inn á aðaltorgið í bænum og fundum okkur veitingastað til að snæða fyrstu almennilegu máltíð ársins. Auðvitað fundum við okkur stað þar sem boli gamli var á boðstólunum. Var því pöntuð nautasteik fyrir þrjá auk víns og goss á liðið. Til að toppa þetta fengum við okkur ís í eftirrétt...mmmmmm.....Ég og Ívar fórum svo að ræða um mikilvægi heilbrigðs lífernis og ættgenga hjartasjúkdóma í okkar fjölskyldum og ætlum við að reyna að vera fyrirmynd þetta nýja ár og fá hjartað til að slá hraðar þó svo að það sé óhagstætt sökum kenningar um að í lífinu sé okkur einungis gefin ákveðinn fjöldi slaga. En eftir matin vöppuðum við um og ræddum um hitt og þetta, skokkuðum svo niður á lestarstöð og skelltum okkur yfir sundin blá til baka til Köben þar sem rúmið varð síðasti áfangastaðurinn þennan fyrsta dag ársins.

Dagurinn sem við hittum frænku hans Ásgeirs rann upp. Ásgeir vaknaði fyrstur og skellti sér í frokost til frænku sinnar hennar Elínar sem hefur verið búsett í Köben s.l. 60 ár. Við Ívar hins vegar ákváðum að taka dagin í að skoða búðir og fólk. Ég brá mér hins vegar fyrst út á netkaffi til að kanna ástandið heima fyrir og sjá hvað biði mín við heimkomuna. Ívar mætti svo til mín tæplega klukkustund síðar og við fórum upp í Fields sem sögð vera stærsta verslunarmiðstöð norðurlanda. Þar ráfuðum við um og skoðuðum ýmsar skemmtilegar vörur. Ívar fann sér loðfrakka sem hann festi kaup á og hefur ekki farið úr síðan. Ekki er úr vegi að minnast við þetta tækifæri á það að klósettpappírinn sem notast er við í Fields jafnast á við fínan sandpappír og er afskaplega óaðlaðandi til hverskonar notkunnar. Eftir Fields fórum við niður í bæ og löbbuðum Istugötuna heim að hóteli þar sem við hentum inn draslinu sem við keyptum. Því næst var komið að því að hitta frænku Ásgeirs og mæltum við okkur mót við neðanjarðarlestarstöðina við Nýja torg kóngsins. Um kl 18:10 mættu svo Ásgeir og frænkan og við vorum kynnt fyrir hvort öðru. Við óðum svo með henni á Grískan veitingastað rétt fyrir ofan Strikið og melduðum okkur á hlaðborð. Eftir mat og spjall kvöddum við frænkuna og skelltum okkur í bíó. Völdum myndina Flags of our fathers sem er ágætis mynd. Við völdum hana ekki bara af áhuga heldur líka af því við vildum sjá heimahaganna þar sem við höfðum dvalið svo lengi fjarri þeim. Eftir bíóið var svo haldið heim á leið og byrjað að pakka niður fyrir heimferð morgundagsins.

Nú fríið er búið og aldrei það kemur aftur....dagurinn byrjaði snemma þar sem við þurftum að vera búnir að tæma herbergið fyrir kl 10:03. Náðum því ekki sökum þess að við erum Íslendingar og teljum okkur ekki þurfa að hlíta reglum í danmörku. Þegar við höfðum loks náð að ganga sómasamlega frá röltum við niður á lestarstöð þar sem við hentum töskunum okkar í geymslu. Svo lá leið okkar upp á Carlsberg safnið þar sem við sáum bæði í máli og bragði hvernig bjórinn verður til. Fékk að smakka á þessum veigum og var þessi óafengi langsamlega bestur að mínu mati. Eftir safnið tókum við leið 18 að Dominos í Köben og fengum okkur nokkrar sneiðar. Svo lá leiðin fram hjá heimili Viggu og þvínæst út að Fluggrillinu þar sem Ásgeir tók nokkrar myndir af flugvélum. Eftir rólega, en langa ferð þarna út eftir var nú komið að því að stíga upphafsskrefin að heimferð okkar til Íslands. Eftir að hafa endurheimt farangurinn á aðalbrautarstöðinni héldum við svo út á flugvöll þar sem við hinkruðum eftir að komast um borð. Á flugvellinum hitti ég fyrir 3 króksara, gamlan nágranna minn úr Jöklatúninu, Ingvar kærasta Eyglóar og svo vin hans sem ég man nú ekki hvað heitir (Þ-eitthvað) en við vöppuðum inn flugstöðina en kvöddumst svo þar sem komið var að því að ég ætti að takast á loft til Íslands. Kl. 20:29 var svo keyrt frá flugstöðvarbyggingunni og var þá fríið á enda kljáð.

Svo er spurningin eftir svona mikið ævintýri hvort ekki sé nú gott að koma heim í heiðardalin og takast á við verkefni nýja ársins. Fyrir mig sem er búinn að sjá margt og mikið þessi jól og áramót er ég nú fegin að vera komið í normið. Þó hefði ég viljað dvelja lengur en held að tvær vikur sé góður tími að heiman. Vona ég að þið sem eruð búin að lesa þetta farið nú inn á myndaalbúmin og skoðið allar þær myndir sem myndaðar voru í ferðinni. Viðurkenni það fúslega að þetta er ekkert lítið en get fullvissað ykkur um að þetta er áhugavert og sumt mjög skondið. Endilega skrifið spurningar við myndirnar ef þið viljið vita meira um þær og ég svara ykkur um hæl hér á netinu. En þeim sem ég hitti og var með færi ég miklar þakkir fyrir allt og vona að ég geti endurgoldið alla þá greiða og hjálp sem þið veittuð mér í þessari ferð.

Með Nýjárskveðjum

Holmes.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og tuttugu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband